Babúskur

Ég á fallega Babúsku, sem eru tréstyttur sem raðast hver inn í aðra, frá því að ég fór til Moskvu fyrir löngu síðan. Í mínum huga sýna þær snilldarlega þá staðreynd að við höfum öll margar hliðar sem okkur ber að nýta og láta njóta sín.

Þekktar starfsferil kenningar ganga út á hin mörgu sjálf. Þegar við veljum starfsferil okkar ung og rjóð erum við að velja út frá einni dúkkunni hugsanlega þeirri stærstu. Við hefjum starsferilinn og áttum okkur síðan á hvort hann hentar eða ekki. Stundum er dúkkan of stór eða of lítil og við endurmetum hana eftir því hvernig aðrar raðast inn. Hjá flestum finnast fleiri dúkkur sem vilja fá að sjást en ekki vera aðeins hið innra, sérstaklega eftir því sem hlutverkum fjölgar; starfsmaður, stjórnandi, foreldri, vinur, jógakennari, fjallgöngumaður, rithöfundur, bloggari eða giggari.

Samkvæmt kenningum og rannsóknum mínum verðum við meðvitaðri eftir því sem líður á ævina um hin mörgu sjálf okkar, okkur langar til að endurraða dúkknum þannig að þær njóti sín sem best. Ný hlutverk og nýjar hliðar af sjálfum okkur vilja fá að skína. Oft er það innsta dúkkan sem fer að reyna að fá athygli.  Hún hvíslar, "manstu hvað þú ætlaðir að gera? Manst hvað þér þótti alltaf skemmtilegt? Ertu alveg viss um að þú sért að gera það sem endurspeglar þig raunverulega?" 

Ég hef sjálf verið í hlutverki margra dúkkna á mínum starfsferli; háskólakennari, stjórnandi, rithöfundur, fyrirlesari, giggari, pólitíkus og móðir, amma, dóttir og vinkona. Hver hluti af sjálfri mér sem býr hið innra þarf reglulega á því að halda að ég hafi hugrekki til að stökkva af stað og leyfa þeirri næstu að taka pláss. Það merkilega er að það er hægt að finna endalausar dúkkur hið innra og það sem ég hef lært er að þær sem maður hélt að yrðu alltaf litlar geta stækkað.

Núna horfi ég á Babúskurnar mínar og er þakklát fyrir að þær minna mig á að heildin er fallegri ef ég leyfi þeim að standa saman því ef maður aðskilur dúkkurnar og setur á sitthvor staðin sést ekki listaverkið eins og vel og þegar þær standa stoltar saman.

Ömmustlepan mín elskar að leika sér með dúkkurnar, alveg hissa þegar hún uppgötvar eina enn þegar ég hef sett þær saman. Það skemmtilega við lífið og starfsferilinn er að það er alltaf ein enn hlið af okkur sem við höfum ekki enn leyft að njóta sín og það er líka aldrei of seint að uppgötva þá hlið.

 

 


Dagur í lífi konu í framboði.

Um leið og ég þýt út um dyrnar á morgnana reyni ég að muna hvort ég tók örugglega tölvuna, varalitinn og hvort hausinn á mér er fastur á. Ég byrja hvern dag á fundi þar sem farið er yfir dagskrá dagsins. Fundur hér og fundur þar, úthringingar til að tala við borgarbúa og svo þarf að sjá um að skrifa og reyna að koma boðskapnum á framfæri.

Ég dett aðeins út á fundinum og hugsa til þess hvort að sonurinn sé í úlpu því að það er rigningarlegt úti og ég hitti hann eiginlega ekkert þessa dagana. 

Um leið og fyrsti fundurinn hefst þar sem boðið er upp á kaffi, brauð og sætindi fara áform mín um að borða hollt út um gluggann og upp hefst enn annar dagur þar sem ég borða brauð, súkkulaði og brauð í þessari röð. Það góða er að ég gleymi mér alltaf í málefnum fundarins, alveg sama hvort verið er að fjalla um fátækt barna, ferðaborgina eða háskólana, skólamál eða leiksskólapláss, heimilslaust fólk. Mér finnst málefnin svo krefjandi og áhugaverð og fyllist orku við að nema og setja mig inn í þau. Á leiðinni frá fundinum man ég að líklega er kötturinn ekki búin að fá neitt að borða í nokkra daga, var til kattarmatur? Hringi í dóttur mína og bið hana að gefa syninum að borða um kvöldið og minni mig á kaupa pasta svo hann hafi neyðarútbúnað á kantinum, já og kattarmat.

Á næsta fundi hitti ég fullt af fólki og það skemmtilega er að ég er m.a. að hitta fólk sem var í stúdentapólitík með mér fyrir nokkrum áratugum. "Ertu ekki í góðri vinnu" spyr gamall vinur minn sem líka er í póltík, ég man þá efir því að ég á eftir að semja próf. Ég er nefnilega líka í annarri vinnu. Ég hugsa um stund "hvernig datt mér þetta aftur í hug..?"  Um leið man ég eftir að ég brenn fyrir borginni og málefnum hennar og verð aftur sátt. Reyni að ná að hringja í mömmu á leiðinni á næsta fund.

Það er skrýtið að vera í nýju hlutverki, ég er vön að vera sérfræðingur sem á er hlustað en núna segir fólk við mig fullum fetum "ég skil ekki hvað þú ert að segja." Ég er svo aldeilis hissa og reyni að útskýra aftur en þá er bara yppt öxlum og sagt "þetta er ekki málið." Ég tekst á við egóið sem þykist alltaf vita betur en stjórnmál snúast um sameiginlega sýn svo ég lýt í lægra haldi og minni mig á að ef ég get ekki útskýrt mál mitt þá þarf ég að brýna söguna. Ég hringi í borgarbúa, "sæl, ég heiti Árelía Eydís og er í framboði.." mér til ánægju taka allir mér vel og sumir krefja mig um flókin svör og ég hef ánægju af því að fá að heyra hvað brennur á fólki. Sakna þess að hafa ekki séð barnabarnið í nokkra daga.

Kem heim seint að kvöldi og drengurinn er sofnaður, heyrði í skiptinemanum sem er erlendis sem ég er farin að sakna sárlega.

Ein af mínum fyrirmyndum í lífinu, Guðrún Helgadóttir sem er nýlátin, sem bæði var rithöfundur og pólitíkus (eins og ég) vildi að konur í stjórnmálum fengju fatastyrk. Ég hugsa til hennar þar sem ég horfi inn í fataskápinn minn í örvæntingu í leit að einhverju til að vera í daginn eftir. Hugsa um leið og ég lít yfir að ef ég held áfram að borða brauð, súkkulaði og brauð þá muni fljótlega ekkert passa. 

Þegar ég leggst á koddann minn seint að kvöldi og fer í huganum yfir daginn þá er ég þreytt en ánægð. Stjórnmálaþáttaka er grundvöllurinn að lýðræðinu og fyrir einstæða móður er það stór ákvörðun að leggja til krafta sína en maður kynnist fullt af skemmtilegu fólki, setur mark sitt á stefnumál og lærir og ég minni mig á að ég vill læra allt lífið og þá er ég sofnuð.


Staðreyndir sem skipta máli.

 

1. Stærsti vinnustaður landsins er Reykjavíkurborg með um 11.200 starfsmenn.

2. Rúmlega 40% núverandi starfsmanna íslenskra sveitafélaga eru eldri en 55 ára núna.

3. Gert er ráð fyrir að fjölgun íbúa í Reykjavík geti orðið allt að 70.000 árið 2040.

4. Erlendir ríkisborgarar eru hátt í 20% af öllum íbúum höfuðborgarinnar núna.

5. Í kjölfar heimsfaraldurs vinnur fólk sem hefur til þess sveigjanleika um 30% af störfum sínum heima.

6. Traust á borgarstjórn mælist 21% og er í neðsta sæti af stofnunum landsins.

Höfuðborgin er að breytast hratt og með því verða þarfir borgara fjölbreyttari. Það er ekki hægt að keyra eina hugmyndafræði til þess að koma til móts við þarfir borgara núna eða til framtíðar.

Núna skiptir máli að vinna með samfélagssáttmála um hvernig við leysum brýnan vanda húsnæðismála og skipuleggjum samgöngur og innri skipulag borgarinnar með heilbrigða skynsemi að leiðarljósi.

Núna, og til framtíðar eigum við að vinna að því að gera samfélagssáttmála um hvernig við gerum Reykjavík að eftirsóttasta vinnustað landsins þannig að þjónusta og forysta í borginni sé leiðandi í landinu öllu. Núna, og til framtíðar er mikilvægt að Reykvíkingar beri traust til borgarstjórnar. Það smitar inn í allt samfélagið.

Núna og til framtíðar verðum við að vinna saman að því að gera Reykjavík að manneskjulegri borg þar sem við sameinumst um að börnin okkar dafni, fólk blómstri og líði vel, vinna nýja kortlagningu þarfa út frá hækkandi lífaldri. Við vitum að við höfum verk að vinna og að borgarlífið er að breytast, í því felast tækifæri.

Framsókn er valmöguleiki kjósenda sem láta stjórnast af heilbrigðri skynsemi til framtíðar.


Tækifæri til vaxtar.

Gleðilega páska. Gleðilega "Passover" og gleðilega Ramadan mubarak. Það er mjög sjalfgæft að saman fari megin trúarhátíðir kristinna, gyðinga og múslima. Allar eiga þessar trúarhátíðir það sameiginlegt að vera mikilvægar fagnaðarhátíðir. Tákn um upprisu, frelsun og andlega vakningu og fela í sér tækifæri til vaxtar og umbreytingar eins og náttúran sem vaknar að vori. Sjaldan fara þessar trúarhátíðir saman því við notumst ekki við sama dagatal. Þetta eru merkilegir tímar.

Það er hefð fyrir því m.a. hjá gyðingum að líta í eiginn barm og spyrja sig ákveðinna spurninga á þessum tímamótum. Gagnlegt er, samkvæmt hefð þeirra, a velta fyrir sér hvað þú vilt halda í og hverju þú vilt sleppa úr lífi þínu.

Hefðbundið spyrja þeir sig eftirfarandi spurninga:

1. Hvað vil ég?
2. Hver vill það (væntingar mínar eða annarra)?
3. Hvað ætla ég að gera í því?
4. Hvenær?
 
Þar sem ég dvel núna í hjarta Evrópu á heimili þar sem úkraíenskar flóttakonur konur búa með okkur þá á ég þá ósk eina að allur heimurinn, hvaða trúar sem er, sameinist um að biðja fyrir og senda frá sér óskir um að friður náist meðal manna. 
 
Tár þeirra sem nú streyma niður kinnar vegna sprengja sem falla á land þeirra, heimilis sem hefur verið gjöreyðilagt, ástvina sem eru í hættu og hafa jafnvel verði drepnir eru sársauki okkar allra. Tár yfir því að friðsæld hafi enn ekki verið náð og að sagan endurtaki sig. 
 
Ég vona að við finnum leiðir til þess að auka traust og öryggi í okkar litla samfélagi og tilfinningu fyrir því að við tilheyrum öll hvort öðru. 
 
 
 
 

Skák, tíska og frumkvöðlar.

Hefur þú einhvern tíman velt því fyrir þér af hverju ákveðin tískumerki slá í gegn en ekki önnur? Eða hvaða vara verður algjörlega nauðsynlegt að eignast til þess að teljast maður með mönnum? Hvers vegna pólitískt umhverfi breytist eða fasteignaverð sveiflast?

Alveg eins og það er talað um að hafa pólitískt nef sem útskýrist einhvern veginn þannig að sjá fyrir og skilja þá pólitísku leiki sem leiknir þá byrjar góður skákmaður aldrei nema hafa séð fyrir sér fyrstu leikina. Til þess að hafa pólitískt nef þarf fólk fyrst og fremst að hafa bæði áhuga á pólitíkinni, hvort sem er stjórnmálum eða pólitík á vinnustað, klókindi og framtíðarlæsi. Er skák leikur, íþrótt eða jafnvel list? Spurningin snýst í rauninni ekki um "annaðhvort/eða" heldur bæði. Sumir segja að endataflið sé það stig skákarinnar sem krefst mestrar rökhugsunar. Oft þarf að reikna langt fram í tímann og velja vandlega gang peðanna og kóngsins. Steve Jobs sem hannaði og kom fram með snjallsímann var sannfærður um að í framtíðinni myndum við vera með í símanum okkar; vasadískó, ökuskýrteinið, sjónvarp, útvarp, myndavél, tölvuna, læknirinn og bólusetningavottorðin svo fátt eitt sé nefnt. Fólk taldi hann vera skrýtin.

Hvað eiga tíska, pólitískt nef, skák og frumkvöðlar sameiginlegt?

Þeir sem skilja og sjá fyrir hvaða þarfir eru næstar eða að koma fram á sjónarsviðið, sjá lengra en aðrir, hvort sem er á skákborðinu eða í viðskiptum og ná lengra. Vísindamenn, frumkvöðlar og tískumógúlar hafa alltaf haft óendanlega áhuga á því sem koma skal en ekki bara áhuga heldur líka viljan til þess að hafa áhrif á það sem koma skal. Móta framtíðina

Flestir sem leggja í vana sinn að hlusta eftir þeim þörfum sem eru að koma fram gera það með skipulögðum hætti með því að leggja í ákveðna rannsóknarvinnu. Fyrirtækjastjórnendur hlusta á viðskiptavini með ýmsum hætti, þekkja og afla sér upplýsinga um samkeppnina og reyna að sjá fyrir hvernig viðkomandi atvinnugrein muni þróast. 

Spurningar eins og: Ef ég væri að stofna fyrirtæki mitt í dag hvernig myndi ég skipuleggja það og hvaða þörfum myndi það þjóna? Allir stjórnendur þurfa að setja upp KPI (key performance indicators) eða lykil mælikvarða, strategíu eða stefnumótun til þess að ná framtíðarsýninni en þá þarf hún líka að vera til og vera alveg kýrskýr.

Hvað með alla aðra starfsmenn, mig og þig? Hvort sem við erum launamenn eða giggarar þá náum við ekki árangri í nútímaumhverfi nema með framtíðarlæsi. Þarfir breytast, störf breytast, tækninni fleygir fram og pólitísk, efnahagslegt og samflélagslegt umhverfi er stöðugt að breytast.

Hver viðhorf stjórnenda, starfsmanna og okkar allra til breytinganna er veltur á því hvort við kunnum að lesa í sjóndeildarhringinn. Framtíðarlæsi er eins og skák, miðtaflið er hjarta skákarinnar. Þar á mesta sköpunin sér stað. Sá sem hefur frumkvæðið eftir byrjunina getur fundið leiðir til árása. Oft er sókn besta vörnin. Næsta Coco Chanel er ekki fædd ennþá en hún mun nýta þrívíddartækni, gervigreindina og samkeppnisgreiningar, nýjasta tækninýjungin verður líkleg til þess að breyta lífi okkar álíka og snjallsíminn og Afríka er næsta álfa tækifæra á mörgum sviðum.

Sóknin fyrir okkur öll er að undirbúa framtíðina með því að lesa í það sem koma skal og það er lykillinn að endataflinu í hverjum leik fyrir sig.


Stefnumót við sjálfa/n sig

Þessir dagar milli jóla og nýárs eru uppáhaldsdagar mínir. Ég er ekki enn byrjuð í megrun og maula því konfektið án samviskubits. Jólabækur spænast upp en ég á enn eftir eina eða tvær en mikilvægast er þó stefnumótið sem ég á við sjálfa mig og uppgjörið við árið.

Þetta var árið þar sem við ætluðum að skemmta okkur, grímulaust og ferðast og dansa burt heimsfaraldurinn með gleðiópum. Í staðinn þrömmuðum við að eldgosi, reyndum að komast á austfirði í bongó blíðu og núna undir lok ársins erum við annað hvort með covíd, búin að fá cóvid eða á leiðinni að fá cóvíd. 

Næsta heimsmeistarakeppni - Ísland best í heimi, snýst um að ná hjarðónæminu fyrst! Þrátt fyrir allt eru flestir með mild flenskueinkenni og við erum forréttindahópur á heimsmælikvarða sem erum eins og nálarpúði eftir dýrar bólusetningar. Árið þar sem við öll Zoom-uðum yfir okkur en glöddumst þegar við máttum hittast.

Ég reyni alltaf að lækka í umhverfishávaðnum og heyra í skottunum hið innra. Spurningin mín til þerra er: Hvað er að kalla til mín? Hvaða þætti í tilverunni vilja fá athygli á næsta ári. Það vex sem veitt er athygli. Nýtt ár bíður upp á nýtt upphaf.

Ég fæst við framtíðarfræði í starfi mínu sem háskólakennari og sem rithöfundur. Nýjast bókin sem ég skrifaði með Herdísi Pálu Pálsdóttur, Völundarhús tækifæranna - fjallar um það sem er að koma. Hlaðborðið sem við getum gengið að er með fleiri og framandi réttum en áður. Hvað af því sem er í boði kallar á þig?

Mínar bestu ákvarðanir eru þær sem koma þegar ég hef hlustað af athygli í myrkrinu milli jóla og nýárs. Stundum hafa svörin krafist hugrekkis eða stuðnings. Ég hef flutt, farið í nám, lagt í ferðalög og gengið 1000 kílómetra á ári, hlaupið maraþon (10.km hljóta að heita maraþon..), gengið Jakobsveg, skrifað bækur, greinar og eignast börn, haldið námskeið. Allt þetta og miklu meira hefur verið vegna þess að ég fór á stefnumót með sjálfri mér og hlustaði af athygli. 

Núna er tíminn þegar álfar fara á stjá, íslenskar þjóðsögur segja frá því að á gamlárskvöldi eigi húsmæður að þrífa og setja ljós í glugga til að bjóða álfum heim og ganga þrisvar í kringum bæinn og fara með eftirfarandi þulu "Komi þeir sem koma vilja, veri þeir sem vera vilja, og fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinlausu."

Þetta ælta ég að gera, hreinsa upp allt konfektið af gnægtarborðum, bjóða álfum heim með því sem hefur kallað til mín og biðja álfana að taka heimsfaraldurinn frá okkur, mér og mínum að meinalausu!

Ég óska ykkur að þið fylgið kallinu sem býr innra með ykkur og eigið gleði- og gæfuríkt ár 2022 verður gegggggggjað, hvíslaði að mér álfur.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir

sjá nánar á https://völundarhús.is 


Hvað má læra af því að dansa flamenco?

Ég brá mér til Spánar á haustmisseri þar sem ég dvaldi við skrif í hinni fögru Granada. Til þess að liðka mig og standa upp frá tölvunni skráði ég mig í tíma í flamenco dansi. Ég mætti í íþróttaskóm og hækkaði meðalaldur um alla vega þrjátíu ár. Senjorítan sem kenndi mér talaði enga ensku en leit á skóna mína með líkamstjáningu sem var mjög skýr. Mér varð ljóst að í flamincó mætir maður ekki í íþróttaskóm, alvöru senjorítur mæta í háum hælum, í skóm sem hægt er að smella niður hæl og tá. Spænskar senjorítur fundu upp kynþokka, held ég svei mér þá.

Hver tími hófst á því að hreyfa fingurnar í tíu mínútur og síðan handleggi og svo fætur. Vandræði mín voru að reyna að hreyfa saman hendur og fætur. Flamenco sem UNESCO hefur nýlega sett á lista yfir menningararf heimsins er flókið form ljóðlistar, söngs og gítarspils og dans og ekki síst klapps og fótastapps og hrópa. Enginn veit hvaðan nafnið flamenco kemur en flestir eru sammála um að uppruninn sé í Andalusíu eða suður Spáni.

"Fuerte!" hrópaði senjorítan þegar við stöppuðum niður hælum og sló upp höndunum á sér. Ég reyndi að gera þetta eins ákveðið og ég gat en einhvern veginn voru hendur og fætur ekki alltaf í sama takti. Senjortían nálgaðist mig, leit ströng á mig og lét mig klappa taktinn. Hún leit á mig og sagði stolt " í flamenco stjórna dansararnir taktinum, laginu og línunum." Lagið, rymðinn og flæðið fer eftir dansaranum en ekki öfugt. Það var sem hún segði að á Spáni stjórnuðu konurnar lífstaktinum sjálfum.  

Þess vegna verður flamenco dansari að vera í góðum tengslum við sitt "duende". Duende er hægt að þýða sem ástríðu, flæði eða innri neista sem við öll höfum. Eftir að dansari hefur dansað í um 10 til 15 mínútur sagði skáldið  Federico García Lorca, sem var frá Granada, að dansinn yrði "as los sonidos negros" eða að þá kæmu hin svörtu hljóð fram, það sem býr innst í myrkvum okkar. 

Mér tókst ekki að finna mitt duende í dansinum til þess þarf maður margra ára þjálfun alveg eins og í öllu öðru. Hins vegar er ég að æfa mig í háum hælum, setja rósir í hárið og óræðu augnaráði, rauðum kjólum og stórum slæðum og að slá karlmenn út af laginu. Allt þetta hefur hver einasta spænska senjoríta í litla puttanum á sér. Norræni takturinn er aðeins öðruvísi í Birkenstokk skónum....

Á aðventunni von mín að þú finnir þitt "duende" í myrkrinu og einhver veginn finnst mér að við þurfum öll á því að halda að setja smá "Fuerte" í hlátur og gleði, kátínu og daður og taka einn dans í viðbót þó að það sé bara í stofunni heima með köttinn sem mjálmar á kantinum og sérrí í glasi, hæll, tá... og jóla duende. 

 


"Roskin" þingmaður.

Þá eru kosningar afstaðnar, þrátt fyrir að ekki sé alveg ljóst hvort talningar munu fara fram fram að jólum. Ég hef að sjálfsögðu mjög gaman af kosningabaráttu, kjöri og pólitískum umræðum enda sjtórnmálafræðingur. Oft finnst mér vanta upp á áhuga og umræðu um forystu en það er eingöngu vegna þess að það er mitt fræðasvið. Það sem manni sjálfum finnst merkilegt er ekki alltaf það sem öðrum finnst merkiegt sem betur fer er fjölbreytni í mannlífinu.

Forysta snýstum vald og hverjir gegna forystu og hvernig viðkomandi gera það hefur heilmikið að segja um völd í samfélaginu. Nú þegar Angela Merkel stígur til hliðar bíður flokkur hennar afhroð. þegar mjög sterkur leiðtogi stígur til hliðar þarf að hafa farið fram ferli þar sem væntanlegir leiðtogar eru undirbúnir en slíkt gleymist ansi oft. Sáum það þegar Thatcher fór frá, Churschill, svo nefnd séu nokkur dæmi. Forysta er bæði list og vísindi og það er munur á forystu í opinberum störfum og á almennum markaði.

Ég hafði gaman af því að hlusta á umræður um "roskna" þingmanninn sem er sjötíu og tveggja ára. Biden var að taka við einu af stærstu forystu embættum heimsins og hann er 78 ára, Nancy Pelosi er 81 árs en hún hefur gengt forystustörfum í bandaríska þinginu. Elísabet drotting Breta er 95 ára. Flestir þingmenn í Bretlandi eru á sextugsaldri, í Danmörku er meðalaldurinn um 47 ár og er Marianne Bruus Jelved elst eða 75 ára. Í Svíþjóð er meðalaldurinn um 45 ár og er Barbro Westerholmel elst 85 ára. Í þýskalandi var meðalaldur þingmanna fyrir kosningar 49.7 ár en í Frakklandi er hann 62.8 ár.

Fjölbreytni snýst ekki bara um kyn, kynþætti og kynhneigð heldur líka um aldur. Í framtíðarfræðunum er því haldið fram að hinir rosknu munu taka við völdum og hinir yngri munu ekki hafa aðgang því flestir kjósendur núna eru á miðjum aldri víða um heim og þeir eldast. Líklega verða fréttir um "roskna" þingmenn ekki fréttnæmar eftir áratug nema að þeir séu á níræðisaldri. 

Fjölbreytni í mannlífinu verður að endurspeglast á hinu háa Alþingi. Ef að vinnustaður hefði sömu starfsmannaveltu og flokkar á alþingi þá myndu vera fengnir margir sérfræðingar til að ráða í það. Ákveðin starfsmannavelta er heilbrigð en of mikil skapar rof í þekkingu og reynslu sem er erfitt.

Ég óska öllum þingmönnum, rosknum, ungum og miðaldra til hamingju og vona að þeir hafi mestan áhuga á að vinna landi og þjóð gagn.

 

 


Sjö skref að góðri hauststemmingu í kó-víti.

Ég skipulagði u.þ.b. fjórtán ferðir erlendis á síðustu tveimur árum, fimmtán matarboð sem ekki voru haldin og innflutningspartý sem ekki varð af. Missti af böllum og skröllum (smá ýkjur, feels like it..). Hugsunin "þegar þetta verður búið..", ég sá fyrir mér að sumarið 2021 yrði sannkölluð gleðiganga - en hún var heldur ekki haldin.

Við erum öll að klóra okkur í hausnum og velta fyrir okkur hvernig þetta fer. Skólarnir, vinnan, eldgosið og kó-vítið. Það eina sem við vitum er að við vitum ekki neitt. Ég kenni m.a. Breytingastjórnun við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Þar er fyrsta lögmálið, okkur er öllum illa við breytingar, þaðan vinnum við með stöðuna. Krisustjórnun snýst um að koma hárréttum skilaboðum sem fyrst til þeirra sem á þurfa að halda. Við höfum séð þríeykið gera það á daglegum fundum. 

Núna þurfum við öll á forystu í eigin lífi á að halda, vissan verður að koma innan frá. Forystu á tímum stöðugra breytinga, nýrra upplýsinga og endalausrar aðlögunar. 

Mínar tillögur.

 

1. Takmarkaðu áhorf, áheyrn og lestur á hörmungarfréttum. Akkúrat núna þarf maður ekki á því að halda að hafa líka áhyggjur af skógareldum. Það þýðir ekki að manni sé sama um umhverfið og kolefnasporin, en núna, akkúrat núna á maður nóg með að reyna að finna ryðmann í nýrri heimsmynd. Horfstu í augu við óttann en ekki láta hann stjórna þér.

2. Sinntu sóttvörnum og farðu að reglum. Hins vegar skaltu kyssa alla þá sem þú mátt kyssa vel og lengi. Faðma þá sem eru í þínum innsta hring. Hringja í hina og hitta oft. 

3. Opnaðu augun fyrir tækifærunum sem þessi staða hefur fært okkur. Út kemur bók eftir mig og Herdísi Pálu Pálsdóttur, Mannauðsstjóra hjá Deloitte á næstu dögum. Hún heitir: Völundarhús tækifæranna. Það er ekki tilviljun að þetta nafn er valið. Það eru fullt af spennandi þáttum sem heimsfaraldurinn hefur skapað.

4. Settu þér ný markmið sem heilla þig upp úr skónum. Eitthvað sem þú getur hlakkað til að ná. Hvort sem það er að læra að mála eða skrifa bók eða læra töfrabrögð, búa til föt úr gömlum eða læra um rafmynt.

5. Nú er lag að læra eitthvað nýtt eða fríska upp á þekkinguna. Fjarkennsla, nýjar bækur, námskeið eða fara á bólakaf í að kynna sér fluguveiðar eða sveppatýnslu, sultugerð og gervigreind. Endalaus tækifæri til að grípa.

6. Við erum öll að æfa æðruleysi. Taka því sem að höndum ber - reynum að flytja birtu þangað sem myrkt er. Vera til blessunar öðrum og umhverfinu. Það er ekki hægt alltaf en má reyna.

7. Minntu þig á að þessu lýkur ekki hratt, við erum búin að læra það. Heimurinn þarf á því að halda að við tökum saman höndum og meðan að veikasti hlekkurinn er veikur þá er keðjan öll óstabíl. Það verður væntanlega ekki fyrr en flestir jarðarbúar hafa fengið bóluefni,  líka fyrir stökkbreytingum, sem við munum ná árangri. Lífið verður aldrei eins. Þetta er lærdómsferli sem undirbýr okkur fyrir næstu plágur. Þetta þarf ekki að vera verra ástand, hugsanlega er það betra. Hvernig getur það orðið betra fyrir þig? Nú er lag að vinna með sjálfan sig og móta lífstíl sem manni líður vel með.

Haustið er alltaf upphafið að einhverju nýju og spennandi í mínum huga. Lyktin af nýjum stílabókum, strokleðri og bleki. Kertaljós og rökkur, rómantík og uppskera. Allt sem raunverulega skiptir máli er hér enn. Það má njóta þess og fagna því að vera á lífi jafnvel þó maður hafi misst. 

 


Mig langar í nýjan kjól...

Mig langar í nýjan kjól. Virkilega langar í nýjan kjól. Undanfarna daga hef ég gengið á milli búða og skoðað kjóla. Ég finn ekki þann sem er í huga mér og bíð mér ekki upp á að máta því þá er skaðinn skeður gagnvart buddunni. Ég vafra á netinu og skoða kjóla. Í morgun vaknaði ég og mig langaði ennþá í nýjan kjól.

Ég fór að skoða þessa löngun aðeins betur, allir draumar þurfa rými. Ég hef næstum enginn tækifæri til að vera í kjólum nema með fjölskyldunni minni sem er svona nokkurn veginn sama hvernig ég klæði mig svo lengi sem ég er klædd og komin á ról.

það sem reyndist undir þörfinni fyrir nýjan kjól er að mig langar svo að sitja á grísku útikaffihúsi við haf sem er svo blátt að það er grænt, í nýjum kjól. Mig langar að vera stödd á markaði í útlöndum þar sem allt grúir af vörum frá framandi löndum. Allir litir sem eru einhvern veginn tærari en litirnir sem við notum í norðrinu. Lyktin af kryddi og exótískum mat. Fólk sem er allt öðruvísi en samt alveg eins. Eg meira að segja sakna þess að einhver æpi á mig "Maddam, special price for you!" eða að vera elt af æstum sölumönnum, í nýjum kjól.

Mig langar að ganga um í heimsborg þar sem enginn er með grímu og fólk er upptekið við að lifa en ekki að lifa af.

Þó að það væri ekki nema að fara niðrí bæ og drekka nokkra kokkteila. Faðma þá fast sem maður hefur ekki séð lengi og kyssa þá sem maður þekkir betur. Dansa svo lengi að manni verkar í fæturnar og koma ekki heim fyrr en undir morgun og fleygja sér í rúmið eftir að hafa lent á trúnó og séns, í nýjum kjól.

Kannski maður fari bara upp að þessum F-eldgosi sem drottinn gaf okkur til að skoða þegar við höfum ekkert annað. Ég fer ekki þangað í nýjum kjól eða nokkrum kjól.

Verðum að fara með æðruleysibænina aftur og aftur og láta okkur dreyma um þann tíma sem við getum hoppað upp í flugvél eða farið á mannamót - í nýjum kjól með bólusetningu í vöðvunum.

Þegar ég hafði áttað mig á þessari þörf minni fyrir nýjum kjól. Settist ég og hélt fund með öllum hliðum af sjálfri mér. Ég spurði þær hvað það væri sem ég gæti gert fyrir þær allar, mínar innri frekjur. Svarið var einfalt: Haltu bara áfram að fara yfir verkefni og ljúktu við það sem liggur á að gera og slappaðu svo af! Þú átt hvort sem er nóg af kjólum!

Ég spyr nú bara hvenær á kona nóg af kjólum?

Nú þurfum við öll að leyfa okkur að dreyma um tíma þar sem Víðir kemur ekki reglulega í sjonvarpinu og daglegar tölur þýða hitastig en ekki veikindi. Blöstum bara Bubba Morteins syngja "þessi fallagi dagur" 

Konurnar blómsta brosandi sælar
Sumarkjólar háir hælar
Kvöldið vill komast að 

Gleðilega heimapáska.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband