Hetjur

Í enn eitt skiptið fáum við tækifæri til að kveðja það ár sem nú líður að lokum. Við horfum til baka og metum hvað tókst vel til og hvað mætti betur fara. 

Þetta ár var mér viðburðarríkt en það sem stóð upp úr var líklega "come-back" Kristínar Gerðar systur minnar sem lést fyrir tæpum átján árum. Kvikmyndin; Lof mér að falla í leikstjórn Baldivins Z er að hluta til byggð á hennar sögu. Þrátt fyrir að við fjölskyldan styddum þau sem að myndinni stóðu af heilum huga þá var ég ekki undirbúin fyrir að sjá allt í einu umfjöllun um systur mína í helstu fjölmiðlum landsins. Ofan af gömlum sári opnuðist sprungur og ég, og fjölskyldan, var tekin aftur í tíma. Tíminn gékk í hringi. Við þurftum að lauga sárið. Um leið og ég gékk inn í sársaukan af því að hafa misst manneskju sem mér var svo kær og náin þá blæddi enn á ný.

En um leið rann upp fyrir mér ljós. Það þarf einstaka manneskju til að hafa þau áhrif á aðra að þeir vilji gera sögu hennar skil mörgum árum síðar. Kristín var einstök manneskja sem lét engann ósnortinn.  Hún lenti því miður oft í fólki sem hafði orðið skepnunni að bráð, sínum eigin innri skepnum og lægri hvötum sem gerði það að skepnum. 

Þegar hún hafði snúið við blaðinu og hætt í neyslu varð hún enn mennskari en áður. Hafði séð allt það versta og vildi af einlægum hug bjarga ungu fólki frá skepnunum bæði ytri og innri. Gékk í það að nýta lífreynslu sína öðrum til bjargar. Í öllum ævintýrum fer hetjan í gegnum erfiðleika til að bjarga fjársjóðnum og öðlast kongungsríkið. Hún reyndi að öðlast kongungsríkið en átti erfitt með að fóta sig í því. Á þeim tíma sagði hún oft það sem flestir sem eru veikir segja "ég þrái bara venjulegt líf."

Ég sá allt í einu að henni tókst að ná fram tilgangi sínum sautján árum eftir að hún ákvað að stipla sig út úr okkar jarðneska heimi. Hetjan hafði ekki þrek lengur en eftir sat áhrifin af mennsku hennar. Líf litað af sársauka hefur líka tilgang og maður þarf ekki að lifa löngu lífi til að hafa mikil áhrif. Ef mennskan er í fyrirrúmi þá eru áhrifin langvinn.

Sárið greri aftur. 

Við eigum val um að láta skepnuna taka völdin, hvort sem er innri eða ytri. Þeir sem hafa látið skepnuna taka völdin hafa oft orðið fyrir mestum harmi og ná ekki að kasta af sér haminum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að hjartað stjórnar meiru en heilinn í starfsemi líkamans. 

Með opnu hjarta sjáum við að líf okkar er töfrum líkast, svo lengi sem mennskan nær yfirhöndinni.

Áramótaheit mitt er því að vera með opið hjarta og að verða enn mennskari í minn eiginn garð og annarra og ekki síst í garð þessa dásemdar hnattar sem við svífum saman á. Rækta Kærleiku, vináttu, nánd, fyrirgefningu og jákvæðni. Leggja hart að mér til að ná markmiðunum ekki aðeins fyrir sjálfa mig heldur í þágu annarra.  

Við getum öll orðið hetjur í okkar venjulega lífi með því að læra af sársaukanum en ekki næra skepnuskapinn.

Ég óska ykkur, hverju og einu, að nýja árið færi ykkur töfra og verkefni sem ýta undir mennsku ykkar. Þannig verðum við hetjur í okkar eigin ævintýri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband